Frumkvöðlar á Hvaleyri - page 61

61
Fór þá einn inn á flöt og kveikti á kveikjara til að hinir vissu hvert ætti að slá. Eiríkur mun einnig hafa fengið
hjartaáfall við klettinn á 17. braut. Sigurður Héðinsson kom þar að honum en Eiríkur hafði fengið áfallið eftir
upphafshögg allgott. Sigga er í fersku minni þegar hann heyrði Eirík segja þar sem hann lá á jörðinni: „Ég trúi
ekki að ég eigi eftir að deyja hér eftir svona gott dræv!“ Eiríkur var reyndar heppinn að Sigurður var þarna í
hefðbundnum erindgjörðum en hann mun einnig vel þekktur sem „brennuvargur“ því þeir Knútur læknir
áttu það víst til að fara með eldi um Hvaleyrina og brenna sinu þegar þeir töldu þörf á því.Var því flestum ljóst
hverjir voru á svæðinu þegar reykjarmökkinn lagði upp af golfvellinum á þessum árum.
Af einhverjum sökum virðist Eiríkur Smith koma oftar við sögu en margir aðrir þegar eitthvað skondið
hefur gerst á vellinum á þessum árum því til er fræg saga af því þegar hann var að spila þar sem nú, árið
2017, er 11. braut og hafði átt annað gott „dræv“. Kemur þá aðvífandi maður sem alltaf var kallaður Jói á
hjólinu og hjólaði vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið allvel búinn. Jói hafði meðal annars gaman af því að
fara í Sædýrasafnið og í einhverri ferðinni þangað lagði hann leið sína um golfvöllinn á Hvaleyri. Sá hann
þá hvar bolti Eiríks hafði lent á góðum stað inni á „gríni“. Hann tók upp boltann en varð líklega ekki um sel
þegar Eiríkur hrópaði á hann að sleppa boltanum! Hjólreiðamaðurinn hrökk við og henti boltanum frá sér
í skyndingu en þá vildi svo vel til fyrir Eirík að boltinn rataði þráðbeint ofan í holuna úr höndum Jóa. Taldi
Eiríkur sig þar með hafa farið holu í höggi!
Rétt er að geta þess hér að sambýlið og samstarfið við Sædýrasafnið var alltaf til fyrirmyndar meðan það
var og hét. Eftir að safnið var lagt niður fékk Keilir mannvirki þess til afnota og er ákveðnum staðarheitum
frá tíma safnsins haldið til haga. Má þar til dæmis nefna hvalalaugina þar sem er inniaðstaða æfingasvæðisins
í Hraunkoti, ísbirnirnir voru þar sem árið 2017 er púttæfingasvæði við fyrsta teig á nýja hluta vallarins í
hrauninu og ljóna- og apabúrin gegna nú hlutverki áhaldahúss.Til eru ýmsar skemmtilegar sögur af dýrunum
í Sædýrasafninu og samskiptum þeirra við kylfinga. Hrafnar safnsins sluppu til dæmis reglulega inn á golfvöll-
inn og sóttu þar golfkúlur í gríð og erg. Svo ágengir gátu hrafnarnir verið að þeir fóru hreinlega ofan í golf-
poka kylfinga uppi við skála og sóttu sér golfkúlurnar þangað ef ekki var annað í boði! Gæsir safnsins voru
einnig tíðum áhugasamar um golfiðkunina og áttu það til að „aðstoða“ kylfinga með því að hnýstast í bolta
þeirra þar sem þeir lágu og jafnvel bæta aðeins við upphaflega högglengd með goggi sínum. Kom jafnvel
fyrir að þær nytu hvatningar þeirra sem í hlut áttu og höfðu hagsmuni af því að boltinn færðist örlítið nær
holu. Geitur áttu að sama skapi til að iðka svipaða iðju og gæsirnar nema hvað þær nenntu ekkert að vera að
ýta boltum en vildu miklu frekar stanga kylfinga. Einna skemmtilegust af atvikum tengdum sambúð Keilis
og Sædýrasafnsins er þó sagan af erlendum kylfingi, Peter Salmon, sem lék á Hvaleyri og taldi sig hafa séð
kengúrur! Félagar í Keili, sem vissu mætavel að kengúrur var að finna í Sædýrasafninu, ákváðu hins vegar að
kannast alls ekkert við að þessa dýrategund væri að finna hér á landi en vissulega væri hún algeng í Ástralíu.
Þeir þrættu við Peter dágóða stund svo hann hélt um tíma að verulega væri farið að slá út í fyrir sér. Hið sanna
kom á daginn svo Peter Salmon gat andað léttar.
Í bréfi sem dagsett er 17. maí 1973 og stílað á Valdimar Örnólfsson formann íþróttanefndar ríkisins
kemur fram að félagsmenn í Keili, þá 120 talsins, hefði einróma samþykkt teikningu sænska golfvalla-
hönnuðarins Skjölds og að endanlegt skipulag 12 holu vallar lægi þar með fyrir. Þá hefðu félagsmenn í Keili
lagt í framkvæmdir á vellinum sem næmu liðlega einni milljón króna. Þá lögðu íþróttayfirvöld til að Keilir félli
frá hluta af því sem íþróttasjóður skuldaði klúbbnum gegn því að styrkurinn yrði greiddur á fjórum árum.
Keilir samþykkti það. En síðan heyrðist ekkert frá íþróttayfirvöldum, að því er fram kemur í bréfinu. Hins
vegar hafði GSÍ falið klúbbnum að halda landsmót í golfi sem hafði átt að fara fram í júlí í Vestmannaeyjum
en af augljósum ástæðum, sem ekki eru nefndar í bréfinu en þar er væntanlega vísað til eldgoss í Heimaey,
gætu eyjarskeggjar ekki haldið mótið. Töldu Keilisfélagar skyldu sína að hlaupa í skarðið en til þess þyrfti að
1...,51,52,53,54,55,56,57,58,59,60 62,63,64,65,66,67,68,69,70,71,...74
Powered by FlippingBook