60
leggja völlinn og miða við að hann verði 12 holur. Töldu ýmsir þörf á þessu og var málinu vísað til stjórnar
í stað þess að kjósa nefnd í málið, með breytingatillögu við þá fyrri. Að minnsta kosti er ljóst að á þessum
tíma var Golfklúbburinn Keilir með svolitla vaxtarverki og Sigurður Héðinsson virðist hafa verið kosinn for-
maður þótt hann hefði eindregið en árangurslaust beðist undan því vegna anna. „En ekki veldur sá er varar,“
bókar Gunnar Hilmarsson ritari fundargerðarinnar að lokum í gerðabókina og hefur þau orð eftir hinum
endurkjörna formanni. Gunnar þessi hefur unnið umtalsvert björgunarstarf heimilda að því er virðist ásamt
Rúnari Guðmundssyni með því að færa inn minnispunkta þess síðarnefnda í gerðabókina.
Stjórnin ræðir vallarmálið á fundi sínum þann 8. janúar 1972 og er það nefnt „væntanlegt nýskipulag vallar-
ins, þ.á.m. hugsanlegan 12 holu völl“. Ekki er fleira efnislega bókað þar en ráðist var í einhverjar framkvæmdir
á vellinum eins og hann var og ýmislegt tilgreint sem unnið skyldi að eins og fjárhagur leyfði. „Nokkuð var rætt
um „RÖFF“ og hvernig þau skyldu slegin.“ Og fundinum lauk á þeirri bókun. Á þessum tíma var klúbbskálinn
opinn á virkum dögum frá 16:00-22:00 og um helgar frá 10:00-12:00 og 14:00-19:00.
Þann 6. apríl sama ár var kominn skriður á skipulagsvinnu við völlinn og bókað í fundargerð stjórnar
Keilis þennan dag að formaður klúbbsins myndi mæta á fund sem haldinn yrði með sænskum vallarsérfræð-
ingi (Skjöld) ásamt fulltrúum annarra klúbba. Rætt var um aðkomu Nils Skjölds að Hvaleyrarvelli annars staðar
á þessum blöðum - þar sem sagt var frá þróun golfvallarins og verður því ekki fjölyrt nánar um þau mál hér.
Keilir hefur allt frá upphafi átt kylfinga í fremstu röð, jafnt í hópi fullorðinna sem yngri kylfinga og aðeins
fimm árum eftir stofnun klúbbsins, árið 1972, eignaðist klúbburinn sína fyrstu afreksmenn þegar Alda Sig-
urðardóttir varð telpnameistari og Sigurður Thorarensen drengjameistari.
Keilir átti einnig í samstarfi við Golfklúbb Ness um skemmtikvöld sem til dæmis var auglýst í Vísi 25.
mars 1976 og má þar sjá að slík skemmtun var haldin 27. mars í Iðnaðarmannahúsinu í Hafnarfirði og voru
aðgöngumiðar seldir hjá Sveinbirni Björnssyni og Ottó Péturssyni.
Það er gamalt stef og nýtt í starfsemi fjölmargra félagasamtaka að þau njóta mismikilla vinsælda. Stundum
fjölgar svo ört að grípa þarf til takmarkana á inntöku nýrra félaga en á öðrum tímum ýmist fækkar félögum
eða fleiri óskast. Og það var einmitt staðan þann 9. janúar 1973 þegar stjórn Keilis kom saman og ræddi
mögulega fjölgun félaga. Þá var ákveðið að
reyna þá aðferð að gefa félögum sem koma með nýja félaga í klúbbinn á árinu 1973
afslátt á félagsgjaldi 1974 sem hér segir:
Þeim sem koma með 1 nýjan 0%
Þeim sem koma með 2 nýja 25%
Þeim sem koma með 3 nýja 50%
Þeim sem koma með 4 nýja 75%
Þeim sem koma með 5 nýja 100%
Þess utan var samþykkt að halda tvo skemmti- og fræðslufundi og að auki fengju nýir félagar þrjár kennslu-
stundir sem væru 30 mínútur hver. Þess má geta að síðar var bókað að tilraunin með afslátt af félagsgjaldi
fyrir nýja félaga bar ekki sérlega góðan árangur en talið var að hún hefði skilað um 10-15 nýjum félögum
samkvæmt því sem bókað var á næsta aðalfundi þann 4. febrúar 1974.
Greiðasala hefur tíðkast í golfskála Keilis nánast frá fyrstu tíð og þann 25. mars samþykkti stjórnin sam-
hljóða að ganga til samninga við Bryndísi Jónsdóttur, einnig þekkt sem Binna listmálarans Eiríks Smith, um
reksturinn en Eiríkur var mjög virkur í Keili um árabil og eftir hann liggja fjölmargar stórskemmtilegar myndir
eða auglýsingar fyrir mótshald á vegum klúbbsins. Það er dálítið gaman að þessu þar sem sagan segir að Binna
hafi fært Eiríki kost á golfvöllinn svipað og þegar sláttumenn fengu nestið sitt út á engjar hér forðum því ekki
hafi hann mátt vera að því að fara heim til að sækja sér næringu. Þvílíkur var golfáhuginn!
Svo eru til sögur eins og sú um Eirík Smith og félaga að þeir hafi stundum gleymt sér og lent í myrkri.