57
Það er ekki heiglum hent að fá inni í Golfklúbbnum Keili nema hafa heimilisfesti í Hafnarfirði, að minnsta
kosti ekki á þessum árum. Ýmsir freistuðu þess þó og sérstaklega er gaman að lesa bréf frá ungum Skaga-
manni sem augljóslega hefur haft bein í nefinu þrátt fyrir ungan aldur og er ófeiminn við að tjá skoðanir
sínar í bréfi til Keilis sem vélritað er á Akranesi þann 19. júlí 1968 - en spjallformið á því minnir satt að segja
ekkert síður á þá möguleika sem síðar opnuðust með tölvupósti og samfélagsmiðlum. Þessi piltur átti síðar
eftir að láta verulega að sér kveða á vettvangi golfíþróttarinnar sem síðar verður frá sagt. En bréf hans til Keilis
er svohljóðandi:
Ég heiti Hannes Þorsteinsson, og ég er 16 ára gamall. Ég skrifa þetta bréf, til að fá allar upplýsingar um það, hvort ég get gerzt meðlimur
í G.K., og með hvaða skilmálum.
Svo er mál með vexti, að næstkomandi haust, vetur og vor mun ég vera nemandi í Menntaskólanum við Hamrahlíð, og þar af
leiðir búseta í Reykjavík. Ég æfi golf og mundi vilja halda því áfram, þó ég skipti um búsetu þennan tíma. Þá er um tvo kosti að ræða:
annaðhvort að gerast meðlimur í nærliggjandi golfklúbb, eða borga daggjald í hvert sinn sem ég hyggst æfa golf. Finnst mér seinni
liðurinn vera algjörlega ómögulegur, en sá fyrri alveg sjálfsagður. Nú, þá koma tveir golfklúbbar til greina, G.R. eða G.K. Golf-
klúbbur Reykjavíkur hefur mjög há ársgjöld, er mér sagt, og þar sem ég hef ekki ótakmörkuð auraráð, þá er það útilokað að ganga í
þann klúbb. Þá er Keilir eini klúbburinn sem til greina kemur. En ekki veit ég hvort þið takið meðlimi í klúbbinn, sem eiga lögheimili
utan Hafnarfjarðar, en mér finnst nú ekkert óréttlátt þótt ég mundi fá inngöngu hjá ykkur. Nú bið ég um allar þær upplýsingar sem ég
þarf til að geta gerzt meðlimur í Golfklúbbnum Keili.
Jæja þetta hefur ef til vill verið heldur langt mál hjá mér, en ef þið viljið vita eitthvað um mig þá eru hér svolitlar upplýsingar. Ég
er 16 ára (f. 17. 17. 1952), hef leikið golf í 3 ár, og hef eins og er 26 í forgjöf, en ég hef ekki tekið þátt í nema einni keppni í sumar,
og þá gekk mér illa, en fékk samt þessa forgjöf (ég hef oft leikið völlinn hér á 82-85 höggum, par 63, s.s.s. 62).
Svo vona ég að ég fái svar við spurningu minni fljótlega, og kveð því núna.
Með kylfingakveðju,
Hannes Þorsteinsson (sign)
P.S. Ef formaðurinn les þetta, þá hefur hann eflaust séð mig í bíl með formanni Golfklúbbs Akraness núna um þann 14. þ.m. Ég
er sonur formanns G.A.
Þannig lýkur þessu bréfi. Hannes fær svar sem er dagsett 6. ágúst og undirritað af Jónasi A. Aðalsteinssyni
formanni. Þar er Hannesi tilkynnt að hann eigi kost á því að gerast svokallaður aukameðlimur í Keili. Eini
Félagsstarf með vaxtaverki