66
firðinga fyrir áburðinn sem hann fékk þar árið áður en hann vonar að Hvaleyrin muni engu að síður blasa við
Hafnfirðingum jafn iðagræn og fyrr eða frá því að golfklúbburinn tók við umsjón hennar. „En ég vona líka
sannarlega, að sú grænka og mikla fegurð, sem þar er og öllum má vera augljós, verði að einhverju leyti til
komin fyrir verulega myndarlegan stuðning Hafnarfjarðarbæjar.“
Þannig lýkur bréfinu til bæjarstjórans. Ekki er ljóst af gögnum klúbbsins hvort skriflegt svar barst við þessu
erindi en víst er að Hvaleyrin hefur lifað af og blasir fagurgræn nær allan ársins hring við Hafnfirðingum og
öðrum þeim sem eiga leið um eyrina og nágrenni hennar eftir að golfarar hafa hugsað um hana í 50 ár.
Forsvarsmenn Keilis gerðu fjórar meginathugasemdir við skipulagstillöguna sem um ræðir í bréfinu.
Gagnrýni klúbbsins var í meginatriðum þessi:
1. Stórkostleg skerðing á ræktuðu útivistarsvæði á Hvaleyri þar sem golfvöllurinn var þá. Virðist þar hafa
verið áformað iðnaðarsvæði á hluta golfvallarins sem Keilisfólk taldi að hlyti að finnast betri staður en á
ræktuðu svæði golfiðkenda á Hvaleyri. Það leit svo á að ef til þess kæmi að skipulagstillögurnar kæmust
á framkvæmdastig yrði það „stórkostlegt og óbætanlegt slys“.
2. Uppfylling víkurinnar hjá Bátalóni. Þetta atriði var ekki talið af hálfu Keilis snerta beinlínis golfvöllinn
og Hvaleyrina en uppfyllingin yrði engu að síður „hrapalegt óheillaspor í þá átt að gera Hafnarfjörð
ljótan,“ eins og segir í athugasemdum frá golfklúbbnum auk þess sem fjölskrúðugt fuglalíf myndi bíða
mikinn skaða af framkvæmdinni.
3. Vegstæði fyrirhugaðrar tengibrautar um Hvaleyrarholt. Svo virðist sem vegi þessum hafi verið ætlað
að tengja saman Straumsvík og hafnarsvæðið í Hafnarfirði en Keilisfólk benti á að vegstæðið yrði
mjög dýrt, það myndi sundra golfvallar-/útivistarsvæðinu á Hvaleyri og væri algjörlega ónauðsynlegt.
Auðvelt væri að finna mun hentugri leið og var vísað í meðfylgjandi uppdrátt. Auk þess myndi nálægð
vegarins við golfvöllinn skapa verulega slysahættu og gera stækkun hans í fullkominn 18 hola völl
óframkvæmanlega.
4. Fyrirhuguð íbúðarbyggð vestan í Hvaleyrarholti. „Miðað við fyrirhugaða stóriðju á næsta leiti, bæði í
suðri og vestri, virðist staðsetning þessa íbúðarhverfis næsta óeðlileg. Þar að auki er hún ástæðulaus á
sama hátt og tengibrautin,“ segir í athugasemdunum frá Keili.
Í framhaldi af þessum athugasemdum er forvitnilegt að sjá umfjöllun í athugasemdunum um þær hugmyndir
sem á þessum tíma voru uppi um landnýtingu í nágrenni við golfvöllinn - sem sumar hverjar gengu eftir en
aðrar eru enn í umræðunni þegar Keilir fagnar 50 ára afmæli. Má þar nefna álsteypu og álvölsun en starfsemi
Íslenska álfélagsins var á þessum tíma tiltölulega nýhafin og hafði staðið í um 3-4 ár, stálbræðslu sem síðar
hófst á svæðinu meðal annars með þeim aukaverkunum að ljósin blikkuðu á hafnfirskum heimilum reglulega
um nokkurt skeið, magnesímumklórvinnslu, olíuhreinsunarstöð og títanframleiðslu en einnig voru settar
fram hugmyndir um flugvöll í Kapelluhrauni sem stjórn Keilis taldi að myndi gera svæðið óhæft til íbúða-
byggðar. Hugmyndirnar um flugvöllinn lifa til dæmis góðu lífi enn árið 2017. Einnig voru vegagerð og íbúða-
byggð talin hamla eðlilegri þróun og uppbyggingu Sædýrasafnsins sem þá var sagt „vísir að dýragarði“ sem
ásamt golfvelli og hugsanlegu sjóminjasafni ætti að hugsa sem eina órofa heild á svæðinu sem væri kjörið til
slíkra nota af náttúrunnar hendi.