72
Margir muna eftir verksmiðju Lýsis og mjöls og „peningalyktinni“ sem fylgdi því ágæta fyrirtæki. Golfarar
fóru ekki varhluta af ilminum frekar en aðrir sem voru í Hafnarfirði á tíma þessarar hvítu brækju sem fór um
bæinn og smeygði sér óboðin inn í þvottinn á snúrunum og inn um alla opna og lokaða glugga og dyr sem
hún mögulega fann á leið sinni. Fjallað er um lyktarmengun og margt fleira í Lesbók Morgunblaðsins 10. júlí
1977 en athyglisvert þykir Keilisfólki eflaust að á þessum tíma er rætt um landbrotið á Hvaleyrinni. Það er
Keilismaðurinn Gísli Sigurðsson sem heldur á penna en hann gegndi m.a. formannsembætti Keilis um skeið.
Í greininni er sagt frá því að eftir að hafnargarður var byggður í Hafnarfirði hafi straumar breyst og þá hafi
landeyðingin hafist á norðanverðri eyrinni.
Á löngu svæði, þar sem er um þriggja metra hár bakki, hrynur niður í sjó væn sneið á ári hverju. Sé gengið þarna eftir bökkunum, má
sjá torfurnar, sem fallnar eru niður í fjörugrjótið og er varasamt að ganga tæpt, því eyðingin veldur því, að bakkinn slútir mjög. Þarna
er móberg, laust í sér og stenzt engan veginn ágang sjávarins. Ársæll Grímsson, sem fram til þessa hefur búið í Sveinskoti á Hvaleyri,
kveðst muna eftir fjárhúsi 50—100 metrum utar en bakkinn er nú.
Golfklúbburinn Keilir hefur umráð fyrir Hvaleyrinni og sér um að halda henni í ræktun. Í þessum félagsskap hafa menn fylgzt
með landeyðingunni frá ári til árs, en fjárvana íþróttafélag hefur ekki bolmagn til þeirra aðgerða, sem nauðsynlegar eru. Hinsvegar hafa
menn gert skyldu sína í þá veru að vekja athygli réttra aðila á því hvert stefnir, — en þótt furðulegt megi kalla talað fyrir daufum
eyrum. Sá er þessar línur ritar tók sig eitt sinn fram um að hafa samband við sjálft Náttúruverndarráð. Framkvæmdastjóra þess var
sagt af hraðfara eyðingu lands á þessum fagra stað og beðið um fulltingi Náttúruverndarráðs í málinu. Þegar ekkert gerðist á einu ári
eða tveimur, var erindið ítrekað með bréfi, en hvorki var bréfinu svarað né heldur, að neitt hafi verið gert. Svo sem kunnugt er, starfa
náttúruverndarnefndir í einstökum byggðum og ein slík er í Hafnarfirði. Kannski var henni málið skyldast og með tilliti til þess var
haft samband við formann nefndarinnar; eyðingin útskýrð fyrir honum og hann beðinn að líta á verksummerki og beita sér fyrir því
að stöðva þessa sorglegu þróun. En úr þeim ranni hefur hvorki heyrst hósti né stuna. Einnig var málið gert kunnugt bæjarstjóranum í
Hafnarfirði sem er maður víðsýnn og velviljaður, en ekki hefur það heldur dugað.
Land sem eyðist af völdum uppblásturs, má græða upp aftur, en það land sem brotnar af ágangi sjávar, verður ekki reistvið á nýjan
leik.Auðvelt er að koma í veg fyrir frekari landbrot ef áhugi á því væri meira en í nösunum. Stórvirk ýta gæti á skömmum tíma rutt
fjörugrjótinu upp að bakkanum og með því myndað þann öldubrjót sem með þarf. Efsta hluta bakkans, sem slútir, þarf síðan að fella
niður og sá í sárið. Kannski hafa sérfræðingar Landverndar, Náttúruverndarráðs, Náttúruverndarnefndarinnar í Hafnarfirði og bæjar-
stjórnarinnar þar, aðrar og betri hugmyndir um framkvæmdina og er sama hvaðan gott kemur, ef það reynist árangursríkt. En það er
til lítils að hafa öll þessi fínu ráð og nefndir, ef ekki er hægt að vekja þau af værum svefni, munnlega eða bréflega, vegna landeyðingar
sem blasir við hvers manns augum.
Lýsi, mjöl og landbrot