Frumkvöðlar á Hvaleyri - page 15

15
Magnús Guðmundsson frá Akureyri, sem hannaði fyrsta völlinn, teiknaði síðan 9 holu völl sem var í notkun
til 1972 en þá var tekinn í notkun nýr 12 holu völlur sem Svíinn Nils Skjöld hafði verið fenginn til að teikna.
Flatir voru slegnar þar sem sléttir blettir voru fyrir og golfklúbburinn fékk íbúðarhúsið að Vesturkoti undir
félagsheimili. Draumurinn var þó um 18 holu völl og strax á fyrsta ári voru landvinningaumleitanir hafnar við
Hafnarfjarðarbæ, meðal annars um svæði sem ekki var nýtt norðvestan við Sædýrasafnið með það að mark-
miði að hafa þar æfingasvæði. Þá var Hvaleyrin komin inn á aðalskipulag Hafnarfjarðar sem golfvallarsvæði
sem olli þáttaskilum í starfsemi klúbbsins.
Ljóst er að staðarvalið hefur varla verið tilviljun ein. Vellinum var valinn staður á svæði þar sem var að
finna ævaforn tún sem gerði það að verkum, að mati forsvarsmanna Keilis, að betri brautir og flatir væri varla
nokkurs staðar að finna á landinu. Jarðvegur gerður úr blöndu af mold og sandi væri frá náttúrunnar hendi
eins og best varð á kosið undir golfvöll og er þess getið í riti klúbbsins frá 1984 að útlendingar sem hafi
komið í heimsókn hafi gefið vellinum afar góða umsögn. Þá hafi garðyrkjustjóri lýst ánægju með umgengni
á svæðinu og það hafi klúbbfélagar kunnað að meta enda hafi verið mikill metnaður lagður í fegrun og snyrt-
ingu Hvaleyrarinnar. Meðal fleiri helstu kosta má nefna að völlurinn stendur lágt yfir sjávarmáli og því hægt
að leika golf á vellinum við góðar aðstæður frá apríl og fram í október. Hörðustu golfarar leika þar allt árið.
Sandur er reyndar ríkur þáttur í sögu Hvaleyrarinnar og þar voru gríðarlegar sandnámur á fyrri tíð sem
Guðmundur hokk og fleiri nýttu. Til dæmis hefur verið giskað á að staðir eins og flötin á 17. holu séu í raun
óhreyfðir staðir allt frá landnámi. Að minnsta kosti hefur jarðvegi þar ekki verið bylt eftir að golfvallargerð
hófst á svæðinu og sáð var í flötina eins og hún var á þeim tíma. Örnefni eins og Sandbrekknatún og Sand-
brekkur eru ágætt vitni um þetta. Og raunar gildir það um eyrina að mörgu leyti því þar þóttu afar ákjósanleg-
ur námur. Jónas Aðalsteinsson man til dæmis eftir því úr formannstíð sinni að þáverandi bæjarverkfræðingur
hafði gefið leyfi fyrir því að girðing væri rifin á vellinum til þess að fara mætti þar innfyrir til að sækja malar-
efni. Jónasi hugnaðist að sjálfsögðu ekki að hluta golfvallarins biðu slík örlög og hringdi í bæjarverkfræðinginn
sem leit svæðið ekki kylfingsaugum og taldi óhugsandi að Keilisfólk gæti látið sér detta í hug að bærinn
ætlaði að láta það hafa allt þetta efni! Jónas hafði þá samband við Kristin bæjarstjóra sem tók í taumana svo
ekkert varð úr rýrnun Hvaleyrar af þessum sökum í þetta sinn. Raunar má finna gamlar námur á Hvaleyri og á
fimmtugasta starfsári Keilis má nefna að gamlar námur mynda landslagið á 11. braut og verðandi 13. holu.
Einnig er rifjað upp þegar Sigurður Héðinsson var formaður og Jóhann Bergþórsson forseti bæjar-
stjórnar en sá síðarnefndi var einnig umsvifamikill verktaki eins og mörgum er kunnugt. Voru þá á ferð
vörubílar á vegum Jóhanns og vantaði bílstjóra þeirra að finna losunarstað fyrir múrbrot og grjót en höfðu
ekki haft erindi sem erfiði. Sigurður Keilisformaður taldi felast í þessum bílförmum umtalsverða möguleika á
landvinningum fyrir klúbbinn og beindi umferðinni niður að bátaskýlunum þar sem efninu var sturtað. Ekki
voru fyrir hendi aðrar og formlegri heimildir til þessarar landfyllingar og mun það hafa komið sér frekar illa
fyrir forseta bæjarstjórnar að hann var talinn standa fyrir þessari einföldu og nærtæku lausn við efnislosun og
það í trássi við sjálfa bæjarstjórnina! Hafði hann samband við formann Keilis með þessum orðum: „Hvurn
andskotann ertu búinn að gera?!!!“
Jónas formaður Keilis hafði þó haft fleiri járn í staðarvalseldinum áður en Hvaleyrin varð fyrir valinu.Til er
afrit bréfs sem Jónas skrifar stjórnarnefnd ríkisspítalanna þann 15. mars 1967. Efni þess var: Umsókn um leigu
lands úr Vífilsstaðalandi undir golfvöll. Þar var vísað til samtals við framkvæmdastjóra Ríkisspítalanna um að
stofnfélagar hefðu falið nýkjörinni stjórn Keilis á stofnfundi að finna land undir starfsemi félagsins. Það þyrfti
að vera á nokkuð stóru og ræktuðu landi en lítið væri um slík landssvæði í nágrenni þeirra sveitarfélaga sem
að klúbbnum stæðu, þ.e. sem ekki væru frátekin sem byggingarland. Síðan segir:
1...,5,6,7,8,9,10,11,12,13,14 16,17,18,19,20,21,22,23,24,25,...74
Powered by FlippingBook