Frumkvöðlar á Hvaleyri - page 14

14
Stofnendur Golfklúbbsins Keilis voru 123 talsins svo ljóst er að áhugi fyrir golfi hefur verið umtalsverður
á þessum tíma. Fljótlega var farið að litast um eftir vallarstæði en tveir staðir komu til greina; Hvaleyrin í
Hafnarfirði og spilda úr landi Vífilsstaða í Garðahreppi. Hvaleyrin varð síðan fyrir valinu þótt enn væru ábú-
endur á sumum smájörðunum á svæðinu en forsvarsmönnum Hafnarfjarðarkaupstaðar þótti sómi af því að
nýta eyrina til útivistar eins og golfiðkunar. Kemur fram í riti klúbbsins frá 1967 að mest eigi félagsfólk í Keili
Kristni Guðmundssyni bæjarstjóra að þakka en hann hafi sýnt ýmsu því mikinn skilning sem varðaði samskipti
klúbbsins og bæjarfélagsins.
Í fyrstu fundagerðabók Keilis skrifar Hafsteinn Hansson greinargerð þegar hann hefur sett punkt eftir
fundargerð fyrsta aðalfundarins árið 1968. Hefur Hafsteinn fært fundargerðirnar inn í bókina eftir blöðum
fundarritara, eins og það er orðað en sérstök gerðabók var ekki haldin fyrstu misserin. Þakkar hann Rúnari
Guðmundssyni fyrir það sem varðveist hefur af fundargerðum og telur rétt að skrá í gerðabókina „nokkur
atriði sem ekki hafa verið formlega skráð, en eru samt þýðingarmikill þáttur í byrjunarsögu klúbbsins“:
Vil ég þá fyrst til nefna hið höfðinglega framlag Hafnarfjarðarbæjar er bæjarráð undir forustu Kristins Guðmundssonar bæjarstjóra
leigðu klúbbnum Hvaleyrina, en Hvaleyrin er að fróðra manna áliti sérstaklega vel fallin til golfleiks.
Þótt Hafnarfjarðarbær teldi sig hafa sagt þáverandi leigjendum á Hvaleyrartorfunni upp leigunni með löglegum fyrirvara voru
ábúendur ekki á eitt sáttir með það, svo að klúbbstjórnin mátti, auk þess að greiða bændum þessum fasteignir þeirra á landinu, vinna
þá á sitt mál með að þeirra (þ.e. golfklúbbsins) væri rétturinn.
Hefði ekki klúbburinn átt jafn snjallan formann og raun varð á og hefði klúbburinn ekki notið jafn mikils stuðnings og velvilja
þeirra bæjar- og sveitarstjóra, Kristins Guðmundssonar, Ólafs Einarssonar og Hjálmars Ólafssonar hefði þessi draumur okkar golf-
manna í Keili aldrei orðið að veruleika. Ennfremur ber að þakka Magnúsi Guðmundssyni fyrrverandi Íslandsmeistara hans góða framlag
við skipulagningu vallarins.
Þá hefur það heldur ekki komið fram hér að framan að klúbburinn tók íbúðarhúsiðVesturkot fyrir klúbbhús og hefur þegar breytt
herbergjaskipan þar í samræmi við þarfir sínar.
Ársæll bóndi var strax vorið 1967 ráðinn starfsmaður á golfvellinum og ennfremur var strax það vor keypt brautar- og flatarsláttuvél.
Klúbbfélagar lögðu fram sjálfboðavinnu við að hreinsa burt gamlar girðingar og við að fjarlægja ónýta kofa og drasl, ennfremur
var klúbbhúsið málað.
Þurfti Keilisfólk að hafa talsvert fyrir því að fá allt land sem til þurfti en það hafðist að lokum eins og síðar
verður rakið og vísað er til hér að framan og golfiðkun hófst á Hvaleyri sumarið 1967, fyrst á 6 holu velli.
Val á vallarstæði
1...,4,5,6,7,8,9,10,11,12,13 15,16,17,18,19,20,21,22,23,24,...74
Powered by FlippingBook